Margt rætt á íbúafundi - glærur fylgja

26/08/2024
Deila

Um þrjátíu manns sátu íbúafund VesturVerks, sem haldinn var í félagsheimilinu í Árnesi í Trékyllisvík síðdegis. Á fundinum fór Ásbjörn Blöndal, stjórnarformaður VesturVerks, yfir stöðuna í undirbúningi Hvalárvirkjunar. Gestir VesturVerks á fundinum voru fulltrúar Landsnets sem gerðu sömuleiðis grein fyrir undirbúningi vegna tengingar virkjunarinnar við flutningskerfið.

Ásbjörn gerði góða grein fyrir stöðu verkefnisins og næstu skrefum í undirbúningi. Farið var yfir deilumál sem staðið hafa um landamerki og vatnsréttindi og fjallað um skipulagsmál tengd virkjuninni og breytingar sem gera þarf á aðal- og deiliskipulagi Árneshrepps vegna hennar. Endurskoðun á hönnun mannvirkja stendur yfir og var tæpt á helstu atriðum í þeim efnum ásamt ýmsu sem tengist framkvæmdatímanum og umsvifunum á þeim tíma sem þær standa yfir. Fram koma að gera þarf ráð fyrir að minnsta kosti einu stöðugildi við virkjunartíma þegar hún er komin í fulla notkun.

Endanlega ákvörðun um að ráðast í framkvæmdina verður ekki tekin fyrr en óvissu um landamerki og réttindamál hefur verið eytt og allar hönnunarforsendur liggja fyrir.

Ásbjörn rakti einnig í erindi sínu kosti Hvalárvirkjunar fyrir nærsamfélagið á Ströndum, Vestfirði og landið í heild og fór yfir þær mótvægisaðgerðir sem ætlað er að draga úr umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Einnig gerði hann grein fyrir alþjóðlegu sjálfbærnimati, Hydro Power Sustainability Standard sem fram fer í byrjun september en flestar stærri vatnsaflsvirkjanir í heiminum fara í gegnum slíkt mat í dag.

Umræður um raforkumál á Vestfjörðum og vegamál í Árneshreppi bar hæst á fundinum en fyrir liggur að verulegar vegbætur þurfa að eiga sér stað á Strandavegi og á leiðinni frá Norðurfirði í Ófeigsfjörð áður en framkvæmdir við Hvalárvirkjun geta hafist af fullum þunga.

Fyrir þá sem vilja glöggva sig betur á kynningunni má nálgast glærurnar hér:

Ásbjörn Blöndal, stjórnarformaður VesturVerks, kynnti stöðu í undirbúningi Hvalárvirkjunar og næstu skref á íbúafundi í Árneshreppi.
Ásbjörn Blöndal, stjórnarformaður VesturVerks, kynnti stöðu í undirbúningi Hvalárvirkjunar og næstu skref á íbúafundi í Árneshreppi.