Hvalárvirkjun

Umhverfismat

 Mat á umhverfisáhrifum er lögbundið ferli sem felur í sér að meta og upplýsa um líkleg umhverfisáhrif tiltekinna framkvæmda eða áætlana.  Ferlinu er ætlað að tryggja að fyrir liggi upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdar áður en teknar eru endanlegar ákvarðanir um leyfisveitingar. Einnig er því ætlað að stuðla að samvinnu hagsmunaaðila og aukinni þátttöku almennings í ákvörðunum um framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið. Þá er mati á umhverfisáhrifum einnig ætlað að tryggja að brugðist sé við fyrirsjáanlegum neikvæðum afleiðingum með mótvægisaðgerðum og við hönnun framkvæmda. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum (nr. 106/2000) er tilgreint hvers konar framkvæmdir þurfi alltaf að fara í mat á umhverfisáhrifum og fellur Hvalárvirkjun í þann flokk. 

Mat á umhverfisáhrifum er ákveðin aðferðarfræði þar sem fjallað er um áhrif framkvæmdar á umhverfið.  Í því ferli skal jafnframt leitast við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Þá þarf að kynna framkvæmdina og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum til viðeigandi stjórnvalda. 

Mat á umhverfisáhrifum skiptist í nokkur stig og er undanfari framkvæmda.  Óheimilt er að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum sem falla undir fyrrnefnd lög fyrr en umhverfismat hefur farið fram og álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir. 

Mynd af matsferli:



Tímalína - mat á umhverfisáhrifum.
Tímalína - mat á umhverfisáhrifum.

Matsáætlun

Í matsáætlun lýsir framkvæmdaraðili hvaða þætti framkvæmdar og umhverfis hann leggur áherslu á við matsvinnuna og hann hyggst fjalla um í frummatsskýrslu.  Fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði er lýst, sem og möguleikum við tilhögun og staðsetningu.  Fjallað er um þá þætti umhverfisins sem líklegt er að verði fyrir áhrifum og tilgreint hvernig fyrirhugað er að standa að mat á umhverfisáhrifunum og hvernig niðurstöður verða settar fram.  Leitað er umsagnar opinberra aðila á matsáætluninni og athugsemda frá almenningi.  

Drög að tillögu að matsáætlun Hvalárvirkjunar voru auglýst til kynningar 7.maí 2015 og var athugasemdafrestur til 21.maí.  Skipulagsstofnun samþykkti tillöguna 19.ágúst 2015 með athugasemdum og leggur tillagan ásamt athugasemdunum grunn að frummatsskýrslu. 

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun

Matsáætlun 

Frummat

Í frummatsskýrslu er gerð grein fyrir niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum. Frummatsskýrsla skal vera í samræmi við matsáætlun og í henni þarf að gera grein fyrir öllum þeim upplýsingum og niðurstöðum athugana, rannsókna og mats sem fjallað var um í matsáætlun. Í frummatsskýrslu þarf að koma fram greinargóð lýsing á framkvæmdinni, lýsing á núverandi ástandi athugunarsvæðis, lýsing á þeim áhrifum sem framkvæmd er líkleg til að hafa á framkvæmdasvæðið og næsta nágrenni, til hvaða mótvægisaðgerða verði gripið til að draga úr áhrifum á umhverfið og hvernig fylgst verður með áhrifum framkvæmdarinnar, þegar það á við. 

Frummatsskýrsla Hvalárvirkjunar var lögð fram til Skipulagsstofnunar 27.júní 2016.  Fór hún þá til umsagnar hjá opinberum aðilum og var kynnt almenningi á vefsíðu Skipulagsstofnunar, Verkís og VesturVerks.  Skýrslan lá einnig frammi til kynningar frá 1. júlí til 29. ágúst 2016 hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar í Norðurfirði, skrifstofu Árneshrepps, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Jafnframt hélt VesturVerk fundi í félagsheimilinu í Trékyllisvík þann 6. júlí og þann 10. ágúst hjá Verkís í Reykjavík, til kynningar á framkvæmdinni og mati á umhverfisáhrifum hennar.

Frummatsskýrsla 

Matsskýrsla

Í matsskýrslu kemur fram efni frummatsskýrslu og gerð er grein fyrir umsögnum opinberra aðila og athugasemda almennings ásamt svörum og afstöðu framkvæmdaraðila til þeirra.  

Matsskýrsla 

Viðaukar við matsskýrslu

Álit Skipulagsstofnunar

Skipulagstofnun tekur við matsskýrslu og fer yfir hana. Stofnunin gefur út rökstutt álit sitt á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þar kemur m.a. fram niðurstaða hennar  og tilgreind skilyrði og frekari mótvægisaðgerðir sem hún telur að setja þurfi í leyfum til framkvæmdarinnar. 

Álit Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar lá fyrir 3. apríl 2017.

Álit Skipulagsstofnunar