Já. Með virkjuninni mun raforkuöryggi á Vestfjörðum styrkjast þar sem nýr afhendingarstaður raforku er fyrirhugaður í Ísafjarðardjúpi. Tenging hans til Kollafjarðar við meginflutningskerfi raforku á landinu verður fyrsti áfangi hringtengingar Vestfjarða.
Vestfirðir eru í dag tengdir með einni línu frá Hrútatungu að Mjólkárvirkjun um 162 km leið en Mjólkárvirkjun annar aðeins um 35-40% af raforkuþörf Vestfirðinga. Þessi langa tenging kemur niður á raforkuöryggi Vestfirðinga þar sem bilanir á henni eru tíðar á vetrum.
Fyrirhugað er að Hvalárvirkjun verði tengd með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði að nýjum afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi. Frá nýjum afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi verður lögð lína eða strengur að Mjólkárlínu 1 í Kollafirði, sem telst til meginflutningskerfisins í dag. Tengingin í Kollafirði er einungis 40 km frá Mjólkárvirkjun. Línan eða strengurinn mun liggja frá tengivirki í Ísafjarðardjúpi með ríkjandi vindátt að vetri til og verður því fyrir mun minni veðurfarslegum áhrifum í rekstri en línan úr Hrútatungu í Kollafjörð.
Hvalárvirkjun mun því þegar auka raforkuöryggi til muna þar sem hún mun geta mætt orkuþörf Vestfjarða þegar bilanir verða austan Kollafjarðar (á 120 km línu). Þegar hringtengingu Vestfjarða lýkur með línum frá nýjum afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi verður hægt að flytja orku frá virkjuninni í báðar áttir, þ.e. um Kollafjörð eða út Ísafjarðardjúp.