VesturVerk tekur við Ófeigsfjarðarvegi

20/06/2019
Deila

Vegagerðin og VesturVerk ehf. hafa gert samkomulag sín á milli um að VesturVerk taki tímabundið við veghaldi Ófeigsfjarðarvegar í Árneshreppi. Samningur um veghaldið er liður í undirbúningi virkjunar Hvalár og gildir hann til fimm ára.

Framkvæmdir í Ófeigsfirði eru um það bil að hefjast vegna undirbúnings rannsóknaborana sem fram fara næsta sumar. Liður í þeim undirbúningi eru lagfæringar á Ófeigsfjarðarvegi en nauðsynlegt er að styrkja veginn og breyta honum á erfiðum köflum til að taka við þungaumferð sem fylgir rannsóknunum og síðar virkjunarframkvæmdunum sjálfum. Um er að ræða 20 km langan vegkafla frá Strandavegi að Hvalá.

Samkvæmt samningnum tekur VesturVerk á sig allan kostnað sem kann að falla til vegna vegarins á samningstímanum. VesturVerk skal sinna snjómokstri og viðhaldi með sama hætti og sama þjónustustigi og Vegagerðin hefur gert undanfarin ár. Þó má ætla að þjónustustigið hækki verulega þar sem veginum verður haldið opnum allan ársins hring þegar virkjunarframkvæmdir hefjast fyrir alvöru.

Ófeigsfjarðarvegur er skilgreindur sem landvegur en á slíkum vegum er gert ráð fyrir árstíðabundinni umferð og er almennt minna eftirlit og minni þjónusta á þeim en öðrum þjóðvegum.

Fyrirsjáanlegt er að ástand Ófeigsfjarðarvegar batni til muna þegar lagfæringum er lokið en þær miða einkum að því að styrkja einstaka vegkafla og breyta veglínunni á þeim stöðum þar sem erfitt getur reynst að koma stórum vinnutækjum um.

Í dag er vegurinn úr Ingólfsfirði í Ófeigsfjörð erfiður yfirferðar nema á stórum jeppabifreiðum.

Tölvugerð útfærsla af legu vegar við Eyri í Ingólfsfirði eins og hún birtist í matsskýrslu um Hvalárvirkjun. Mynd: Verkís
Tölvugerð útfærsla af legu vegar við Eyri í Ingólfsfirði eins og hún birtist í matsskýrslu um Hvalárvirkjun. Mynd: Verkís