Í nýúkominni skýrslu Landverndar, sem kynnt var nýlega, er nær ekkert minnst á vægi Hvalárvirkjunar á Ströndum til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum. Engu að síður dregur Landvernd þá ályktun út frá skýrslunni að Hvalárvirkjun muni í engu bæta orkuöryggi i fjórðungnum. Þessi framsetning er röng og hefur VesturVerk sent frá sér yfirlýsingu þess efnis.
Yfirlýsing VesturVerks ehf 11. janúar 2018:
VesturVerk ehf á Ísafirði, sem undirbýr gerð Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði á Ströndum, vill koma á framfæri leiðréttingum vegna fréttaflutnings og annarrar umfjöllunar í fjölmiðlum um skýrsluna „Comparison of High Voltage Cables with Existing Overhead Lines to Increase Energy Security in the Westfjords of Iceland“ sem kynnt var af Landvernd í gær.
Í fréttatilkynningu Landverndar er fullyrt að skýrslan sýni að Hvalárvirkjun geri ekkert til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum. Þetta er rangt. Hvalárvirkjun og ný flutningsmannvirki tengd henni munu skipta sköpum fyrir raforkuöryggi á Vestfjörðum. Forsenda fyrir auknu raforkuöryggi í fjórðungnum er aukin orkuframleiðsla á svæðinu. Undir það taka Landsnet, Orkubú Vestfjarða og Fjórðungssamband Vestfirðinga fyrir hönd vestfirskra sveitarfélaga. Því nær sem orkuuppsprettan er notandanum því öruggari er tengingin til notandans vegna styttri flutningsleiða.
Í skýrslunni er einvörðungu lagt mat á raforkuöryggi út frá tveimur ólíkum kostum í flutningi á raforku – með loftlínum eða með jarðstrengjum. Ekkert mat er lagt á virkjanakosti á Vestfjörðum eða fyrirætlanir VesturVerks um flutning raforku frá Hvalárvirkjun. Hvergi er minnst á með hvaða hætti Hvalárvirkjun mun tengjast flutningskerfi Landsnets. Skýrsluhöfundur nefnir Hvalárvirkjun einungis í einni málsgrein í inngangi skýrslunnar og setur þar fram þá skoðun sína að með loftlínum muni Hvalárvirkjun litlu bæta við raforkuöryggi svæðisins. Þessi skoðun er ekki frekar rökstudd og ekkert efnislegt mat lagt á getu Hvalárvirkjunar til að tryggja raforku til Vestfirðinga.
Hvalárvirkjun verður tengd með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði yfir í tengimannvirki við Ísafjarðardjúp. Meðal valkosta er að flytja orkuna þaðan með sæstreng yfir Ísafjarðardjúp og leggur Fjórðungssamband Vestfirðinga áherslu á þá leið. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa gert þá kröfu að Vestfirðir verði hringtengdir í gegnum nýjan afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi með tengingu til Kollafjarðar og til Ísafjarðar. Sú sviðsmynd er ekki skoðuð í skýrslunni.
Kostnaður við lagningu tæplega 200 km rafstrengs í jörðu er í skýrslunni áætlaður um 20 milljarðar íslenskra króna. Engar nýjar tekjur munu hljótast af því einu og sér að leggja raflagnir Landsnets og Orkubús Vestfjarða í jörðu og því vandséð að sá kostnaður verði greiddur af öðrum en hinu opinbera.
Við veitum fúslega allar frekari upplýsingar í þessum efnum og væntum þess að fá tækifæri til að skýra okkar sjónarmið og leiðrétta rangfærslur á sama vettvangi og fjallað var um ofangreinda skýrslu.
Með vinsemd,
Gunnar Gaukur Magnússon
framkvæmdastjóri
gsm 863-0220