Tillaga að gestastofu við Hvalá

30/01/2018
Deila

Hreppsnefnd Árneshrepps fundar í dag um breytingar á aðal- og deiliskipulagi hreppsins. Þar verður tekinn fyrir fyrri hluti tillagna VesturVerks að skipulagsbreytingum vegna Hvalárvirkjunar en þær lúta að vinnuvegum, efnistökustöðum og staðsetningu vinnubúða. Síðari hluti skipulagstillagna VesturVerks vegna virkjunarframkvæmdanna verður lagður fram til kynningar á vormánuðum.

Fyrir hreppsnefndinni liggja einnig tvö erindi VesturVerks sem snúa að mögulegum hitaveituframkvæmdum í hreppnum ásamt tillögum að samfélagsverkefnum, sem VesturVerk lýsir sig reiðubúið að ráðast í verði af virkjunarframkvæmdum. Óvíst er hvort þau erindi verða tekin fyrir á fundinum í dag. Lögfræðingur og byggingarfulltrúi hreppsins eru gestir fundarins í dag ásamt fulltrúa verkfræðiskrifstofunnar Verkís, sem hefur yfirumsjón með skipulagstillögunum fyrir hönd VesturVerks.

Samfélagsverkefni

Í erindi VesturVerks til hreppsnefndar Árneshrepps dagsett 19. janúar s.l. eru tíunduð nokkur verkefni sem fyrirtækið er reiðubúið að koma að í samstarfi við hreppinn í tengslum við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Hvalá. Flest hafa verkefnin verið kynnt hreppsnefnd á fyrri stigum en tillaga að gestastofu er ný af nálinni. Verkefnin sem um ræðir eru:

· Tenging þriggja fasa rafmagns frá Hvalárvirkjun í Norðurfjörð.

· Ljósleiðari lagður frá Hvalárvirkjun samhliða rafstreng.

· Hitaveita lögð frá Krossnesi í Norðurfjörð að undangengnum samningum um heitt vatn.

· Lagfæringar á bryggjusvæði í Norðurfirði.

· Endurnýjun klæðningar á skólahúsinu í Trékyllisvík.

· Gestastofa við Hvalá.

Gestastofa

Í erindinu frá því í janúar er gerð nánari grein fyrir fyrirætlunum VesturVerks um að reisa gestastofu við Hvalá í Ófeigsfirði sem yrði allt að 600 m2 að stærð. Bygging gestastofu er háð samþykki skipulagsyfirvalda í Árneshreppi. Gestastofan myndi nýtast sem starfsmannaaðstaða fyrir VesturVerk á framkvæmdatíma virkjunarinnar samhliða því að geta þjónað gestum og gangandi sem sækja Árneshrepp heim. Í gestastofunni er gert ráð fyrir sýningar- og veitingasal, eldhúsi, fundaraðstöðu, skrifstofum, starfsmannaaðstöðu og gistirými ásamt tjaldsvæði við gestastofuna með tilheyrandi aðstöðu.

Í gestastofunni verður leitast við að efla vitund almennings um samspil endurnýjanlegrar orkunýtingar, náttúruverndar og ferðaþjónustu. Þar verða veittar upplýsingar um Hvalárvirkjun í máli og myndum og einnig boðið upp á skoðunarferðir um virkjunarsvæðið og stöðvarhús Hvalárvirkjunar. Með gestastofu verður sköpuð aðstaða fyrir kynningu á náttúruminjum, menningu og sögu Árneshrepps sem og sölu handverks úr héraði.

VesturVerk verður eigandi gestastofunnar en reksturinn yrði boðinn út - helst til áhugasamra heimamanna. Hallvarður Aspelund, arkitekt, vinnur nú að þarfagreiningu og hönnun byggingarinnar og verða ítarlegri útfærslur kynntar fyrir hreppsnefnd í síðari hluta tillagna VesturVerks að breytingum á aðal- og deiliskipulagi hreppsins.

Á myndinni má sjá afmörkun lóðar VesturVerks skv. skipulagstillögum. Rauði punkturinn sýnir mögulega staðsetningu gestahússins á lóðinni en nákvæm staðsetning mun ekki liggja fyrir fyrr en á vormánuðum. Einnig má sjá á myndinni legu vinnuvega eins og þeir koma fyrir í skipulagstillögum VesturVerks.
Á myndinni má sjá afmörkun lóðar VesturVerks skv. skipulagstillögum. Rauði punkturinn sýnir mögulega staðsetningu gestahússins á lóðinni en nákvæm staðsetning mun ekki liggja fyrir fyrr en á vormánuðum. Einnig má sjá á myndinni legu vinnuvega eins og þeir koma fyrir í skipulagstillögum VesturVerks.