Staðan á Vestfjörðum óásættanleg

18/09/2018
Deila

„Við getum ekki talað um raunverulegt frelsi til búsetu á meðan grunninnviðir eru með svo mismunandi hætti um landið að það eru einfaldlega ekki sömu tækifærin.“ Sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, á Alþingi í gær í óundirbúnum fyrirspurnartíma um raforkuöryggi þjóðarinnar. Sagði hún jafnframt að staðan í raforkuöryggi Vestfjarða væri óásættanleg. Fyrirspyrjandi var Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sem spurði ráðherra almennt út í fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í uppbyggingu raforkukerfisins en einnig sérstaklega um hlutverk Hvalárvirkjunar í þeirri uppbyggingu.

Ráðherra tók undir með fyrirspyrjanda í því að ekki sætu allir landsmenn við sama borð þegar kæmi að afhendingaröryggi raforku. Það væri áhyggjuefni og eitt af mörgu sem þyrfti að bæta úr. „Það hefur auðvitað ekki gengið sem skyldi í mjög mörg ár og m.a. þess vegna er það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að finna sérstakar áherslur í þá veru. Ég fagna þeim og við vinnum eftir þeim.“

Skýrar áherslur stjórnvalda segir ráðherra

Ráðherra vísaði jafnframt í þingsályktunartillögu sína sem afgreidd var samhljóða frá Alþingi í vor um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. „Þar er að finna skýrar áherslur og markmið af hálfu stjórnvalda sem ber að taka mið af við uppbyggingu flutningskerfisins í gegnum kerfisáætlun Landsnets. Í því þingskjali eru Vestfirðir og Eyjafjörður sérstaklega nefnd sem svæði sem þarf að forgangsraða þegar kemur að úrbótum á afhendingaröryggi.“ Nú þegar hafi Landsnet forgangsraðað framkvæmdum á Vestfjörðum með vísan til áherslna í þingsályktuninni og mætti þar nefna sæstreng yfir Arnarfjörð.

Hvalárvirkjun og afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum

Ráðherra var að endingu spurð að því hvort hún teldi Hvalárvirkjun bestu leiðina til að auka afhendingaröryggi á rafmagns á Vestfjörðum og hvort ríkisstjórnin ætlaði að beita sér fyrir því að sú leið yrði farin. Ráðherra svaraði því til að Hvalárvirkjun myndi bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum að því leyti að með tilkomu hennar yrðu Vestfirðir væntanlega óháðir bilunum á stórum hluta vesturlínu sem verið hefur mjög bilanagjörn. „Vesturlína er sem kunnugt eina raforkuæðin inn til Vestfjarða og liggur frá Hrútafirði að Mjólkárvirkjun, um 160 km leið. Hversu mikið afhendingaröryggi myndi aukast við þetta veltur á því hvar tengingin við vesturlínu yrði staðsett, hvort það yrði vestarlega eða austarlega og þar með hversu stórum hluta vesturlínu Vestfirðir yrðu óháðir.“

Hvað varðar aðkomu ríkisstjórnarinnar benti ráðherra á rammaáætlun og sagði það ekki vera ríkisstjórnarinnar að ákveða í hvaða virkjunarframkvæmdir ráðist væri. „Um slíkar ákvarðanir gilda lögbundir ferlar þar sem rammaáætlun gegnir lykilhlutverki. Alþingi varðar veginn í þessum efnum og síðan taka við viðeigandi leyfisveitingaferlar, skipulagsmál og þess háttar.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. (Ljósmynd: Stjórnarráðið)
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. (Ljósmynd: Stjórnarráðið)