Undirbúningi VesturVerks vegna Hvalárvirkjunar miðar vel. Verið er að ljúka skipulagsgerð fyrir framkvæmdir vegna jarðvegsrannsókna og afla tilskilinna leyfa vegna þeirra.
Frestur til að skila inn athugasemdum vegna breytinga á deiliskipulagi Árneshrepps vegna undirbúningsframkvæmda rann út í lok febrúar. Sótt verður um framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdunum að lokinni yfirferð á athugasemdum.
Meðferð deilumáls í Hæstarétti vegna landamerkja á Ófeigsfjarðarheiði mun ekki tefja undirbúning framkvæmda.
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna undirbúningsframkvæmda var auglýst til umsagnar um miðjan janúar og frestur veittur til loka febrúar til umsagna og athugasemda. Tvær umsagnir bárust, önnur frá Minjastofnun og hin frá Náttúrufræðistofnun, og hafa forsvarsmenn VesturVerks fundað með stofnununum vegna þeirra. Er nú beðið færis fyrir fornleifaskráningu á hluta framkvæmdasvæðisins í samræmi við umsagnirnar.
Að lokinni yfirferð, skráningu fornleifa og aðlögun skipulags að umsögnunum verður sótt um framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdirnar en þær fela í sér jarðvegsrannsóknir, slóðagerð og uppsetningu smærri vinnubúða.
Til stóð að deilumál um landamerki á Ófeigsfjarðarheiði yrði tekið fyrir í Hæstarétti í aprílbyrjun og var þess vænst að niðurstaða lægi fyrir um það bil mánuði síðar. Málsmeðferð hefur nú verið frestað fram til september þar sem Hæstiréttur hyggur á vettvangsferð norður til að kynna sér aðstæður.
Frestun málsins mun ekki hafa áhrif á undirbúning virkjunar Hvalár og er gengið út frá því að undirbúningsframkvæmdir geti hafist á þessu ári. Verði niðurstaða Hæstaréttar neikvæð mun það ekki hafa úrslitaáhrif á áform um byggingu Hvalárvirkjunar en getur þó orðið til þess að breyta þarf tilhögun virkjunarinnar fari svo að vatnasvið hennar skerðist í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.
Flutningar á þyngstu og fyrirferðarmestu einingum virkjunarinnar; aflvéla, rafala og spenna, hafa verið skoðaðir gaumgæfilega og er verið að meta valkosti. Álitlegt virðist að flytja þyngstu einingarnar með blandaðri aðferð, það er með skipaflutningi til hafnar nærri verkstað og áfram landleiðina til Ófeigsfjarðar.
Samhliða skoðun á þungaflutningi er verið að meta nauðsynlegar úrbætur á Strandavegi og Ófeigsfjarðarvegi fyrir almenna umferð og flutning á almennum hlutum virkjunar ásamt efni fyrir framkvæmdir, bæði fyrir VesturVerk og Landsnet.
Vegbætur norður í Árneshrepp eru eftir sem áður mikilvæg forsenda framkvæmda vegna Hvalárvirkjunar. Starfsfólk VesturVerks, Landsnets og verktaka verða að eiga greiða leið til og frá verkstað allt árið um kring og vöruflutningar sömuleiðis.
Landsnet hefur hafið undirbúning að umhverfismati fyrir línulagnir vegna Hvalárvirkjunar, en línurnar eru tvær; Miðdalslína 1 og Hvalárlína 1. Gerir Landsnet ráð fyrir að vinna við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna taki tvö til þrjú ár.
Einnig er hafinn undirbúningur að valkostagreiningu og matsáætlun sem segir hvernig staðið verður að umhverfismatinu, valkostunum sem verða til skoðunar, rannsóknum sem nauðsynlegt er að vinna og samráði á vinnslutíma umhverfismats.
Í kjölfar rannsókna verður skrifuð umhverfismatsskýrsla, sem fjallar um markmið framkvæmda, umfang framkvæmda, umhverfisáhrif valkosta, mótvægisaðgerðir og þann kost sem Landsnet leggur til.
Ásbjörn Blöndal, formaður stjórnar VesturVerks, sat samráðsfund Landsnets sem haldinn var í Bjarnarfirði fyrr á árinu en meginviðfangsefni fundarins var að ræða og greina mögulegar lagnaleiðir til að koma Hvalárvirkjun í samband við flutningskerfið. Umræðan á fundinum og helstu hugmyndir verða síðan reifaðar í valkostagreiningu Landsnets fyrir tengilögn Hvalárvirkjunar.