Á vefsiðu Landsnets er að finna áhugavert yfirlitskort sem sýnir í rauntíma heildarflutning raforku um flutningskerfi Landsnets. Kortið er hreyfanlegt og sýnir hve mikið afl er flutt frá einum stað til annars á landinu á hverjum tíma. Á köldum janúardegi 2018 er flutningur afls inn á Vestfirði ríflega 30MW.
Fyrir Vestfirðinga er athyglisvert að sjá hve mikið afl er flutt inn til Vestfjarða hverju sinni. Magnið fer eftir árstíma og veðurfari en fer sjaldan niður fyrir 10MW og slær upp í 40MW þegar mest lætur. Það sem af er janúarmánuði hafa að jafnaði um 30MW farið af meginkerfi Landsnets inn á Vestfirði. Að morgni 25. janúar 2018 má sjá að Landsnet flytur 33MW inn í fjórðunginn.
Yfirlitskortið sýnir glögglega að á Vestfjörðum er ekki framleidd nægjanlega raforka til að standa undir daglegri þörf íbúa og fyrirtækja. Í nýlegri raforkuspá Orkustofnunar er gengið út frá því að raforkunotkun á landinu aukist um 10% til 2020. Þar er ekki gert ráð fyrir nýjum stórnotendum heldur einungis miðað við lítinn vöxt stóriðju, að íbúum fjölgi og að hagvöxtur haldist. Ef spár Orkustofnunar ganga eftir mun aflþörf Íslendinga aukast um 24MW til ársins 2020. Sumir telja þá spá varfærna. Í þessu samhengi má benda á að Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði verður 55MW að stærð og myndi því ein og sér aðeins dekka þessa auknu orkuþörf þjóðarinnar næstu 3-5 árin.
Það má ljóst vera að eftirspurn eftir raforku mun aukast enn frekar á Vestfjörðum á næstu árum gangi áætlanir eftir um uppbyggingu í fiskeldi og fleiri atvinnugreinum. Því er brýnt að kanna til hlítar alla virkjunarmöguleika innan fjórðungsins um leið og leiða er leitað til að auka afhendingaröryggi orkunnar í fjórðungnum.