Ný vefsíða VesturVerks

19/01/2018
Deila

VesturVerk tók í gær í notkun nýja vefsíðu fyrirtækisins en sú gamla mátti muna fífil sinn fegurri enda orðin tíu ára gömul. Af þessu tilefni var fulltrúum sveitarstjórna við Djúp, Orkubúss Vestfjarða og stærstu eldisfyrirtækja á svæðinu boðið í kaffi og meðlæti í húsnæði fyrirtækisins að Suðurgötu 12 - Vestrahúsinu. Starfsfólki í hinum ýmsu stofnunum í húsinu var einnig boðið að þiggja veitingar og voru gestir um 50 talsins.

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður VesturVerks, flutti ávarp og kynnti hin ýmsu verkefni fyrirtækisins en þó einkum fyrirhugaða Hvalárvirkjun á Ströndum. Hann sagði jafnframt frá nýrri viljayfirlýsingu um orkukaup milli VesturVerks og Marigot á Íslandi sem hyggst reisa kalkþörungaverksmiðju í Súðavík.

Gestir létu vel af útliti hinnar nýju síðu en efnislega á hún eftir að taka einhverjum breytingum, eldra efni verður tínt inn á hana eftir föngum og frekara ítarefni um ýmis verkefni sett inn þegar fram líður.

Vefurinn er hannaður og forritaður af Overcast Software í Reykjavík og er uppsettur í Wagtail vefumsjónarkerfinu, sem er skrifað í Python/Django. Kerfið þykir afar notendavænt, myndameðhöndlun er auðveld, þægilegt er að bæta við sérefni á síður ef þörf krefur og vinna með allar almennar síður.


Um 50 manns heimsóttu VesturVerk í Vestrahúsið í tilefni af opnun nýrrar vefsíðu fyrirtækisins.
Um 50 manns heimsóttu VesturVerk í Vestrahúsið í tilefni af opnun nýrrar vefsíðu fyrirtækisins.