Stórskemmtilegt verkefni um endurnýjanlegar orkuauðlindir á Vestfjörðum, í nútíð og framtíð, er nú til sýnis fyrir gesti og gangandi í Menntaskólanum á Ísafirði. Verkefnið er hluti af námsefni í inngangi að náttúruvísindum fyrir félagsvísindabraut (NÁTV1IF05) en áfanginn er kenndur nýnemum í samstarfi við Fab Lab á Ísafirði. Hvalárvirkjun er meðal orkukostanna, sem nemendurnir fjalla um, enda er virkjunin í nýtingarflokki rammaáætlunar. Vindorka og sjávarföll eru sömuleiðis til skoðunar.
Markmið verkefnisins var að auka skilning nemenda á félagsvísindabraut á orku, orkueiningum og mismunandi orkulindum á jörðinni og efla þekkingu þeirra á endurnýjanlegri orku á Vestfjörðum. Með því að vinna í hópum að framsetningu og sköpun öðluðustu nemendur meiri og dýpri skilning á námsefninu. Skemmtilegt er að nemendurnir nýta sér einmitt rafmagn við framsetningu á orkukostunum innan fjórðungsins.
Nemendurnir unnu undir leiðsögn Ragnheiðar Fossdal, líffræðings og leiðbeinanda við MÍ, sem er að vonum ánægð með afrakstur nemenda sinna. Ragnheiður segir greinilegt að ungt fólk í dag leggi áherslu á hreina, örugga og endurnýjanlega orku. Með verkefninu hafi nemendum tekist að bæta við eigin þekkingu ásamt því að miðla henni áfram í aðgengilegu formi til samnemenda og annarra áhugasamra.
Nemendurnir unnu í fimm ólíkum hópum þar sem allir tóku þátt í þekkingaröflun og framsetningu, svo sem með texta í kynningarmöppum og á veggspjöldum. Í Fab Lab á Ísafirði smíðuðu nemendurnir stórt og myndarlegt orkukort og kortlögðu bæði núverandi vatnsaflsvirkjanir og aðrar orkulindir sem mögulega verða virkjaðar til raforkuframleiðslu í fjórðungnum í framtíðinni.
Orkukortið var í þróun á haustönn 2017 og varð til með aðstoð ýmissa innan MÍ ekki síst Páls Loftssonar, húsvarðar skólans, ásamt verknámskennurum. Kortið er samsett af díóðuljósum sem sýna ýmist vestfirskar virkjanir eða virkjunarkosti. Samtals sjö díóður sýna stöðvarhús virkjana sem fyrir eru á Vestfjörðum. Tvær gular díóður tákna stöðvarhús virkjana sem eru í rammaáætlun og er Hvalárvirkjun önnur þeirra. Grænu díóðurnar tákna svo nýsköpunarvirkjanir nemendanna sjálfra, þar sem áherslan er lögð á endurnýjanlega orku. Fimm þeirra eru vindorkuver, staðsett allt frá hálendi niður að sjó en ein vatnsaflsvirkjun og ein sjávarfallavirkjun eru meðal virkjunarkosta nemendanna.
Verkefnið skiptist í fimm verkþætti þar sem nemendurnir:
A. Settu saman ýmsar upplýsingar á veggspjöld um orkumál, jafnt á heimsvísu sem á Íslandi.
B. Öfluðu upplýsinga um virkjanir á Vestfjörðum og útbjuggu kynningarmöppur (rauðar).
C. Völdu sér endurnýjanlega orkugjafa, hönnuðu ný orkuver á Vestfjörðum á grundvelli þeirra og settu fram í kynningarmöppum (grænar).
D. Kynntu sér virkjanir í rammaáætlun og útbjuggu upplýsingar kynningarmöppur (gular).
E. Hönnuðu og smíðuðu orkukort í Fab Lab. Nemendur sáu um málningu, borun díóðuhola, lóðun tengivíra í díóðuljós ásamt tenginu við rafhlöður í heimatilbúna rofa. Sami litakóði var á díóðum og í lið B, C og D.
Raforkumál eru mjög í deiglunni á Vestfjörðum um þessar mundir. Í ljósi þess eru verkefni á borð við þetta mikilvægur liður í því að uppfræða ungt fólk um það sem efst er á baugi og vekja það til umhugsunar um að orka kemur öllum við. Og hver veit? Kannski leynast í nemendahópnum orkuverkfræðingar framtíðarinnar sem stigu sín fyrstu skref í orkugeiranum með þessu metnaðarfulla verkefni.