Lykillinn að orkuframtíð Vestfjarða

22/03/2018
Deila

Hvalárvirkjun er lykillinn að framtíð Vestfjarða í orkumálum. Þetta er mat Þorbergs Steins Leifssonar, verkfræðings hjá verkfræðistofunni Verkís. Þorbergur er einn fremsti sérfræðingur landsins á sviði undirbúnings vatnsaflsvirkjana og straum- og vatnafræði. Hann bendir á að á nýafstöðnum Vorfundi Landsnets hafi það komið skýrt fram að flutningskerfi raforku landsins stendur ekki undir aukinni eftirspurn eftir raforku í landinu - allra síst á Vestfjörðum. Aukin orkuframleiðsla á Vestfjörðum, einkum virkjun Hvalár, mun standa undir stórum hluta þess sem endurbygging flutningskerfisins í fjórðungnum kostar.

Flutningskerfið ræður varla við eftirspurnina í dag

Vorfundurinn fór fram í Reykjavík þann 14. mars s.l. og þar kom fram að uppbyggingu flutningskerfis raforku hér á landi þarf að hraða til muna ef Íslendingar eiga að geta tekist á við áskoranir framtíðarinnar í orkumálum, ekki síst í orkuskiptum.

,,Nýir tímar" var yfirskrift fundarins. Þeirri spurningu var varpað fram hvort Íslendingar væru undirbúnir fyrir áskoranir framtíðarinnar í raforkumálum. Í fróðlegu erindi Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets, kom glöggt fram að þrátt fyrir að Ísland sé leiðandi í nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda á heimsvísu, ríkir alvarlegt ástand í möguleikum á afhendingu orku til kaupenda. Flutningskerfið ræður varla við eftirspurnina eins og hún er í dag og orkuþörf landsmanna fer stöðugt vaxandi, jafnvel þótt hefðbundnum stóriðjum fjölgi ekki.

Andstaða tefur nauðsynlega uppbyggingu

Í glærukynningu forstjórans birtust tvær myndir sem Þorbergur segir að sýni glöggt ástand orkuflutningskerfis landsins. Myndirnar má sjá hér fyrir neðan. Þær sýna annars vegar hvernig staðan er í möguleikum á afhendingu orku á landinu í dag og hins vegar hvernig staðan verður þegar búið verður að lagfæra línurnar frá Blöndu að Fljótsdal og út á Suðurnesin. Þessir tveir nauðsynlegu áfangar eru þó ekki í höfn þar sem andstaða umhverfisverndarsamtaka og fleiri við uppbyggingu flutningskerfisins hefur reynst mikil.

Tengigjöld af Hvalárvirkjun skipta sköpum

Þorbergur bendir sérstaklega á fyrri myndina hér fyrir neðan. Þegar nauðsynlegum lagfæringum lýkur, sem þarf nú þegar að gera á meginflutningskerfinu, standa Vestfirðir einir eftir á öllu landinu án svigrúms til aukningar í kerfinu. Vestfirðir verða lokaðir fyrir frekari þróun um langan tíma nema til komi orkuframleiðsla innan svæðis, sem getur staðið undir hluta af þeim nauðsynlegu flutningsleiðum sem þarf að byggja upp á Vestfjörðum. Það er mat Þorbergs að þar muni Hvalárvirkjun verða hornsteinninn að uppbyggingunni. Tengigjöld frá virkjuninni munu standa undir stórum hluta þeirra kostnaðarsömu framkvæmda sem Landsnet yrði að ráðast í til að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Án Hvalárvirkjunar mun kostnaðurinn við uppbyggingu flutningskerfisins á Vestfjörðum reynast of hár fyrir Landsnet. Það er því ljóst að Hvalárvirkjun er lykillinn að framtíð Vestfjarða í orkumálum og þá um leið uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra í fjórðungnum.

Myndin sýnir stöðuna á landinu öllu í flutningsgetu kerfisins eftir fyrirhugaðar lagfæringar á línunum frá Blöndu að Fljótsdal og út á Suðurnesin. Þær styrkingar gjörbreyta stöðunni víða um land - nema á Vestfjörðum. Mynd: Landsnet.
Myndin sýnir stöðuna á landinu öllu í flutningsgetu kerfisins eftir fyrirhugaðar lagfæringar á línunum frá Blöndu að Fljótsdal og út á Suðurnesin. Þær styrkingar gjörbreyta stöðunni víða um land - nema á Vestfjörðum. Mynd: Landsnet.
Myndin sýnir mögulega orkuafhendingu frá meginflutningskerfinu eins og staðan er í dag. Svigrúm til aukningar er víðast hvar lítið sem ekkert. Mynd: Landsnet.
Myndin sýnir mögulega orkuafhendingu frá meginflutningskerfinu eins og staðan er í dag. Svigrúm til aukningar er víðast hvar lítið sem ekkert. Mynd: Landsnet.