Landsréttur staðfestir héraðsdóm í landamerkjamáli

28/06/2024
Deila

Landsréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Vestfjarða í máli sem eigendur 74,5% hluta Drangavíkur höfðuðu á hendur eigendum jarðanna Engjaness, Ófeigsfjarðar og Laugalands og sameigendum sínum að jörðinni Drangavík. Kröfum stefnenda hefur því verið hafnað á tveimur dómsstigum.

Kröfðust stefnendur að landamerki milli jarðanna Engjaness og Drangavíkur yrðu með tilteknum hætti þannnig að land Drangavíkur yrði mun stærra en það hafði áður verið talið.

Héraðsdómur Vestfjarða hafnaði kröfunum og áfrýjuðu stefnendur, að frátöldum þremur þeirra, málinu til Landsréttar. Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms frá 5. júlí 2022 og dæmdi stefnendur til þess að greiða samtals 7,2 m.kr. í málskostnað.

Málaferlin tengjast Hvalárvirkjun að því leyti að ef landakröfur stefnenda hefðu verið teknar til greina hefðu vatnsréttindin fylgt með og fyrirliggjandi samningar Vesturverks við landeigendur um virkjun vatnsfallanna hefðu verið í uppnámi.

Kort sem sýnir kröfu þeirra sem höfðuðu málið fyrir dómstólum og Landsréttur féllst ekki á.
Kort sem sýnir kröfu þeirra sem höfðuðu málið fyrir dómstólum og Landsréttur féllst ekki á.