Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru Landverndar á hendur Orkustofnun vegna framlengingar á rannsóknarleyfi VesturVerks í tengslum við fyrirhugaða Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði í Árneshreppi. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Landvernd uppfyllti ekki skilyrði til kæruaðildar að málinu. Í úrskurði nefndarinnar segir jafnframt að ekki liggi fyrir ákvörðun um matsskyldu framkvæmda vegna þeirra rannsókna sem fyrirhugaðar eru á grundvelli hins framlengda rannsóknaleyfis.
Eins og fram kemur í úrskurðinum eru málavextir þeir að að í janúar 2015 sótti VesturVerk um leyfi til Orkustofnunar til rannsóknar á svæðum í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði í tengslum við fyrirhugaða Hvalárvirkjun. Rannsóknarleyfið var veitt í mars sama ár og gilti það til tveggja ára. Í janúar 2017 sótti VesturVerk um framlengingu á leyfinu til tveggja ára til viðbótar. Fyrirhuguðum rannsóknum var þá að mestu lokið en eftir stóð að kjarnabora í jarðgangaleiðir og staðfesta magn jökulruðnings með greftri könnunarhola. Var það mat VesturVerks að vegna kostnaðar væri ekki forsvaranlegt að fara í þær rannsóknir fyrr en fyrir lægi afstaða Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.
Orkustofnun féllst á að framlengja rannsóknarleyfið og gildir það til mars 2019. Þá framlengingu kærði Landvernd í júní í fyrra. Vísað var til laga um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu en kærandi taldi sig eiga lögvarða hagsmuni í málinu án þess að færa á það sérstakar sönnur. Taldi kærandi að hin kærða ákvörðun varðaði framkvæmdir sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Á það féllst úrskurðarnefndin ekki.