Þegar rætt er um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði er því haldið fram af ýmsum að búið sé að ráðstafa allri raforku frá virkjuninni til stóriðju utan Vestfjarða. Það er rangt. VesturVerk er eigandi Hvalárvirkjunar og fyrirtækið hefur enga samninga gert um sölu á raforku frá fyrirhugaðri virkjun. HS Orka, sem er meirihlutaeigandi í VesturVerki, hefur þaðan af síður gert sölusamninga um orku frá Hvalá enda mun HS Orka ekki gera slíka samninga. Einungis VesturVerk getur gert samninga um sölu orku frá Hvalárvirkjun.
Ekki er fyrirséð hvert raforka frá Hvalárvirkjun verður seld. VesturVerk og Marigot ltd, fyrir hönd Íslenska kalþörungafélagsins, hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup og sölu á 8 megawöttum til fyrirhugaðrar kalkþörungaverksmiðju í Súðavík. Annað liggur ekki fyrir að svo stöddu. Þó er ljóst að virkjunin eykur verulega möguleikana á því að byggja upp frekari atvinnustarfsemi á Vestfjörðum, t.d. laxeldi, gagnaver eða minni iðnað. Orkan frá Hvalá getur einnig nýst víðar á landinu með tengingu við flutningskerfi Landsnets.
Eins og staðan er í raforkumálum á Vestfjörðum í dag væri ekki hægt að bæta nýjum stórnotendum við kerfið án þess að auka díselvaraafl um leið. Í því sambandi er áhugavert að benda á að ef allt díselafl til raforkuframleiðslu er í gangi á Vestfjörðum í einu brennir það 120 tonnum af díselolíu á sólarhring. Árið 2015 voru á fimmta hundrað tonn af olíu brennd til hitunar á íbúðarhúsnæði á Vestfjörðum. Aukið framboð á hreinni, endurnýjanlegri orku er því nauðsynlegt til að draga úr notkun jafn mengandi orkugjafa og díselolían er.
Vestfirðir eru ekki sjálfbærir í orkuframleiðslu. Stærsta virkjun fjórðungsins, Mjólkárvirkjun, annar aðeins 35-40% af raforkuþörf Vestfirðinga og minni virkjanir bæta óverulegu við. Á dæmigerðum sumardegi eru allt að 20 megawött flutt inn á Vestfirði af flutningskerfi Landsnets. Yfir köldustu vetrarmánuðina getur innflutningurinn numið allt að 40 megawöttum á hverjum tíma. Það slagar hátt í 55 megawatta framleiðslugetu Hvalárvirkjunar.
Raforkuöryggi á Vestfjörðum er það minnsta sem þekkist á landinu öllu. Vestfirðir eru í dag tengdir með einni línu frá Hrútatungu að Mjólkárvirkjun, um 162 km leið yfir erfitt land- og veðursvæði. Þessi langa tenging kemur illa niður á raforkuöryggi Vestfirðinga þar sem bilanir á henni eru tíðar, einkum á vetrum. Samkvæmt upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða voru 225 truflanir á raforkukerfi Vestfjarða árið 2016, þar af 150 fyrirvaralausar truflanir. Samfélagslegur kostnaður vegna ótryggrar orkuafhendingar hefur verið metinn á 400-500 milljónir króna á ári.
Hvalárvirkjun verður tengd með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði að nýjum afhendingarstað (tengipunkti), væntanlega við innanvert Ísafjarðardjúp, sem ákveðinn verður af Landsneti. Þaðan verður lögð lína/jarðstrengur að Mjólkárlínu 1 í Kollafirði sem telst til meginflutningskerfisins í dag. Tengingin í Kollafirði er einungis 40 km frá Mjólkárvirkjun. Línan/strengurinn úr Ísafjarðardjúpi mun liggja með ríkjandi vindátt að vetri til og verður því fyrir mun minni veðurfarslegum áhrifum í rekstri en núverandi lína úr Hrútatungu, gegnum Kollafjörð og yfir í Mjólká. Hvalárvirkjun mun því þegar auka raforkuöryggi til muna þar sem hún mun geta mætt orkuþörf Vestfjarða þegar bilanir verða austan Kollafjarðar. Önnur fyrirhuguð virkjun við norðanvert Djúp, Austurgilsvirkjun, mun einnig tengjast fyrirhuguðum afhendingarstað við Djúp og styrkja þannig enn frekar fjárhagslegan grundvöll þess að bæta flutningskerfið.
Tengingin úr Ísafjarðardjúpi að Mjólkárlínu verður fyrsti áfanginn í því að hringtengja rafmagn á Vestfjörðum. Með hringtengingu er tryggt að orkan komist á áfangastað með tveimur leiðum. Ef bilun verður á hringnum er hægt að leiða orkuna í hina áttina. Þannig eykst afhendingaröryggi til mikilla muna. Til að ljúka hringtengingunni þarf aðra tengingu norður til Ísafjarðar, annað hvort á láglendi í Djúpinu eða í fjalllendinu ofan við Djúp. Væntanlega mun tengingin liggja í sjó að hluta. Tengingin til Ísafjarðar mun einnig nýtast við flutning á raforku frá fyrirhuguðum minni virkjunum við Djúp, t.a.m. Skúfnavatnavirkjun, Hest- og Skötufjarðarvirkjun, Sængurfossvirkjun og Hvanneyrardalsvirkjun. Línulögnin sem hér um ræðir er háð frekari ákvörðunum Landsnets um uppbyggingu flutningskerfisins á Vestfjörðum en tekjur af raforkuflutningnum frá ofannefndum virkjunum munu greiða niður þann kostnað sem hlýst af uppbyggingu kerfisins.
Það segir sig sjálft að með því að virkja í meira mæli innan Vestfjarða og um leið byggja upp nútímalegar flutningsleiðir raforku munu Vestfirðir betur anna eigin orkunotkun og þannig standa jafnfætis öðrum landssvæðum í raforkumálum. Aukið raforkuöryggi mun laða að Vestfjörðum nýja atvinnustarfsemi og treysta samkeppnisstöðu starfandi fyrirtækja sem verða síður fyrir skakkaföllum vegna tíðra raforkutruflana og bilana. Í þessari uppbyggingu mun Hvalárvirkjun leika lykilhlutverk sem stærsti virkjunarmöguleiki Vestfjarða.