Hvalárvirkjun rædd á Akureyri

12/03/2018
Deila

Hvalárvirkjun kom til umræðu á málþingi um raforkumál sem haldið var í Hofi á Akureyri s.l. fimmtudag. Byggðastofnun stóð fyrir málþinginu en þar var einkum fjallað um flutningskerfi raforku á Íslandi. Þeir sem þar tjáðu sig voru á einu máli um að með réttum tengingum mun Hvalárvirkjun skipta miklu fyrir raforkuöryggi á Vestfjörðum.

Frummælendur á málþinginu komu úr ýmsum áttum s.s. frá Orkustofnun, Landsneti, Skipulagsstofnun, Akureyrarbæ, hópi fyrirtækja, landeigenda og leiðsögumanna. Í almennum pallborðsumræðum lagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna í NV-kjördæmi fram fyrirspurn um það hvaða leiðir teldust heppilegastar varðandi flutning raforku á Vestfjörðum. Til svara urðu þrír frummælendur, þeir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, Guðni Jóhannesson, forstjóri Orkustofnunar og Karl Ingólfsson, leiðsögumaður. Kom skýrt fram í máli þeirra allra að Hvalárvirkjun mun skipta miklu máli fyrir Vestfirði í heild ef flutningsleiðir til Ísafjarðar verða tryggðar.

Fyrir áhugasama er hægt að sjá þessar umræður hér á vef Byggðastofnunar. Fyrirspurn Lilju Rafneyjar hefst ca á 31:45 og svörin vegna Vestfjarða eru á bilinu 34:40-41:15.

Um 100 manns sátu málþing Byggðastofnunar um orkumál sem haldið var í Hofi á Akureyri í síðustu viku. Mynd fengin að láni af vef Byggðastofnunar.
Um 100 manns sátu málþing Byggðastofnunar um orkumál sem haldið var í Hofi á Akureyri í síðustu viku. Mynd fengin að láni af vef Byggðastofnunar.