Landsnet gaf á dögunum út skýrslu sem sýnir að tilkoma Hvalárvirkjunar, með tengipunkti í Ísafjarðardjúpi, mun auka til muna raforkuöryggi á öllum Vestfjörðum. Með mögulegri tengingu til Ísafjarðar yrði afhending raforku þar nær 98% örugg.
Skýrslan ber yfirskriftina Flutningskerfið á Vestfjörðum - greining á afhendingaröryggi og er unnin af verkfræðiskrifstofunni Eflu fyrir Landsnet. Tilgangur skýrslunnar er að greina hvaða leiðir eru helst færar til að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, sem er það lakasta sem þekkist hér á landi. Í skýrslunni er tekið fram að mikilvægt sé að takmarkanir á afhendingu raforku hamli ekki frekari uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.
Í skýrslunni er einkum litið til þriggja þátta sem gætu bætt ástandið: Hringtengingar á einstökum svæðum, uppsetning díselvaraaflstöðva líkt og í Bolungarvík og aukin orkuvinnsla innan fjórðungsins með tilheyrandi tengingum. Þar segir: „Nokkrir nýir virkjunarkostir hafa verið til skoðunar á þessum slóðum m.a. Skúfnavötn, Austurgil og Hvalá. Af þessum virkjunarkostum er Hvalárvirkjun komin lengst í undirbúningi; hún er í nýtingarflokki 3. áfanga rammaáætlunar og framkvæmdaaðili hefur óskað eftir tengingu hennar við flutningskerfið. Af þeim sökum er hún notuð í útreikningunum í þessari skýrslu.“
Með hugsanlegu tengivirki í Ísafjarðardjúpi, og þaðan með línu yfir í Kollafjörð á Barðaströnd þar sem hún yrði tengd við Mjólkárlínu 1, er ljóst að bæta má raforkuöryggi verulega í öllum fjórðungnum sem og í Dalasýslu. Lína úr tengipunkti yfir á Ísafjörð myndi svo bæta um betur og tryggja íbúum Ísafjarðar, stærsta þéttbýliskjarna fjórðungsins, 98% afhendingaröryggi. Inn á þá línu væri hægt að tengja fleiri fyrirhugaðar virkjanir í framtíðinni, s.s. Hvanneyrardalsvirkjun, Sængurfossvirkjun og Hest- og Skötufjarðarvirkjun.
Í öllum útreikningum Landsnets er gengið út frá því að Hvalárvirkjun geti keyrt í eyjarekstri. Það þýðir að ef Vestfirðir einangrast frá meginflutningskerfinu getur virkjunin haldið upp spennu og tíðni á Vestfjörðum. „Það er meginforsenda þess að afhendingaröryggi batni með tilkomu nýrrar orkuvinnslu á svæðinu“, segir í skýrslunni.
Skýrsla Landsnets sýnir, svo ekki verður um villst, að aukin orkuvinnsla í nágrenni Ísafjarðardjúps og tenging hennar um tengipunkt í Ísafjarðardjúpi við Mjólkárlínu 1, hefur jákvæð áhrif á öllum þeim afhendingarstöðum á Vestfjörðum sem voru til skoðunar í skýrslunni. Hvalárvirkjun er sá orkuvinnslukostur sem kominn er lengst í undirbúningi á svæðinu.
Það hefur einnig jákvæð áhrif á afhendingaröryggið að tengja tengipunktinn við Ísafjörð. Ef tengipunkturinn í Ísafjarðardjúpi yrði tengdur til Ísafjarðar auk þess að vera tengdur í Kollafjörð, hefur það veruleg áhrif á norðanverðum Vestfjörðum og á Mjólká, en hefur minni áhrif á afhendingaröryggi á sunnanverðum Vestfjörðum. Niðurstaða skýrslunnar er óyggjandi sú að tilkoma Hvalárvirkjunar mun hafa jákvæð áhrif á afhendingaröryggið um alla Vestfirði.