Hæstiréttur samþykkti nýverið erindi 61% eigenda jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi þess efnis að heimila áfrýjun á dómi Landsréttar í ágreiningi um landamerki á svæðinu. Áfram er unnið að skipulagi undirbúningsframkvæmda vegna virkjunarinnar en ákvörðun Hæstaréttar gæti seinkað framgangi verkefnisins um allt að ári. Búast má við fyrirtöku í málinu innan tólf mánaða.
Um er að ræða landamerki Drangavíkur gagnvart nálægum jörðum, einkum Engjanesi og Ófeigsfirði. Áður hafði Héraðsdómur Vestfjarða sýknað gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda og staðfest landamerkin. Málinu var áfrýjað til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms og var þeirri ákvörðun áfrýjað til Hæstaréttar. Ef niðurstaða Hæstaréttar verður leyfisbeiðendum í vil hefur það væntanlega áhrif á samninga um hluta vatnsréttinda vegna Hvalárvirkjunar. VesturVerk er þó ekki aðili máls.
Ákvörðun Hæstaréttar um að veita áfrýjunarleyfið byggir einkum á því að úrslit málsins „geti haft verulegt almennt gildi, meðal annars um sameign, samaðild og túlkun 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991“. Í þessu felst að Hæstiréttur telur að niðurstaða í málinu geti skapað mikilvægt fordæmi um þessi atriði.
Málið kemur nú til fullrar skoðunar hjá Hæstarétti. Ólíklegt er að hægt verði að óska eftir flýtimeðferð í málinu fyrir Hæstarétti en fyrirtaka er talin líkleg innan tólf mánaða og jafnvel sennilegt að málið komist á dagskrá í vor.
Stjórn VesturVerks mun halda ótrauð áfram vinnu við tillögur að breytingu á deiliskipulagi fyrir undirbúningsframkvæmdir en sú vinna hefur staðið yfir um alllangt skeið í samstarfi við verkfræðistofuna Verkís. Breytingarnar fela í sér lagfæringar á vegslóða, brúun Hvalár, slóðagerð upp á Ófeigsfjarðarheiði, borkjarnarannsóknir og uppsetningu lítilla vinnubúða í Ófeigsfirði.
Í tengslum við undirbúningsframkvæmdirnar er einnig til skoðunar að leggja háspennustreng og ljósleiðara frá Melum að vinnubúðunum í Ófeigsfirði í samvinnu við Orkubú Vestfjarða. Samtalið er hafið við Orkubúið og verður útfærsla framkvæmdar ákveðin síðar. Einnig verður leitað eftir heimild Vegagerðarinnar til að leggja lagnir á veghelgunarsvæði.
Þessu til viðbótar eru unnið að því að rýna og endurskoða ýmis atriði í hönnun virkjunarinnar sjálfrar með tilliti til staðla á sviði sjálfbærni, vatnamála, tækniframfara og tæknikrafna, en frumhönnun Hvalárvirkjun var unnin árið 2017.