Fjölmenni sótti fundinn Rafmagnaðir Vestfirðir sem VesturVerk stóð fyrir á Hótel Ísafirði á föstudag. Fundinum var ætlað að upplýsa um stöðu mála í raforkumálum Vestfjarða og rýna í það sem framtíðin kann að bera í skauti sér í þeim efnum.
Þegar mest lét voru hátt í 100 manns á fundinum en honum var einnig streymt og fylgdust allmargir með útsendingunni í gegnum netið. Nálgast má upptöku af fundinum hér. Af aðsókninni að dæma má ljóst vera að áhugi almennings á raforkumálum á Vestfjörðum fer vaxandi enda um brýnt hagsmunamál fjórðungsins að ræða sem kemur jafnt íbúum sem fyrirtækjum við.
Framsögumenn á fundinum voru Ragnar Guðmannsson, forstöðumaður stjórnstöðva Landsnets, Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða og Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi VesturVerks. Góðar umræður sköpuðust í kjölfar erinda þremenninganna og mátti greina góða samstöðu fundargesta um þær meginlínur sem fjallað var um í erindunum.
Að fundi loknum bauð VesturVerk upp á léttar veitingar og gátu fundargestir þannig haldið samræðum áfram þótt formlegum fundi væri slitið.
Hér má sjá ljósmyndir af hluta fundargesta en myndirnar voru teknar að fundi loknum.