Frumdrög að tveimur virkjunum, sem VesturVerk áformar að reisa við Ísafjarðardjúp, hafa verið send Súðavíkurhreppi til kynningar. Þetta eru Hvanneyrardalsvirkjun inn af botni Ísafjarðar og Hest- og Skötufjarðarvirkjun. Frumdrögin eru unnin af verkfræðistofunni Verkís fyrir hönd VesturVerks.
Nú stendur yfir endurskoðun á aðalskipulagi Súðavíkurhrepps og eru frumdrögin ætluð sem liður í þeirri skipulagsvinnu. Gildistími núgildandi skipulags er 1999-2018 en það var staðfest árið 2002. Í aðalskipulagsvinnunni er mótuð heildarstefna um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Rík áhersla hefur verið lögð á þátttöku íbúa og hagsmunaaðila í skipulagsvinnunni en áætlað er að henni ljúki um mitt ár 2018.
Uppsett afl Hest- og Skötufjarðarvirkjunar verður 17 megawött en Hvanneyrardalsvirkjun er áætluð 11 megawött að stærð. Orkustofnun veitti VesturVerki þriggja ára rannsóknarleyfi vegna Hvanneyrardalsvirkjunar í mars 2016 og vegna Hest- og Skötufjarðarvirkjunar í apríl 2016. Það leyfi gildir til 2020. Vesturverk hóf rannsóknir á báðum virkjunarkostum sumarið 2016 í samstarfi við verkfræðistofuna Mannvit. Settir voru upp sex síritar á vatnasviði virkjananna.
Tilgangur rannsóknanna er að afla gagna fyrir rammaáætlun IIII en virkjanir yfir 10 megawöttum að stærð þurfa að fara fyrir rammaáætlun. Að óbreyttu eru báðar þessari virkjanir af þeirri stærðargráðu.
Hér má finna ýmsar kennistærðir og ítarlegri upplýsingar tengdar Hvanneyrardalsvirkjun og Hest- og Skötufjarðarvirkjun.