Framkvæmdaleyfi í höfn

13/06/2019
Deila

Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti einróma á fundi sínum í gær að veita VesturVerki framkvæmdaleyfi til að hefja síðasta hluta rannsókna sinna vegna Hvalárvirkjunar. Er þetta stór áfangi í verkefninu en með framkvæmdaleyfinu verður loks hægt að undirbúa kjarnaboranir á Ófeigsfjarðarheiði, sem fyrirhugaðar eru sumarið 2020. Til að undirbúa þær verður í sumar ráðist í að brúa Hvalá, undirbúa vinnusvæði fyrir starfsmannabúðir, leggja vinnuvegi á láglendi og undirbúa efnistökusvæði. Einnig verður ráðist í lagfæringar á veginum frá Norðurfirði í Ófeigsfjörð.

Í fundargerð hreppsnefndar kemur fram að nefndin telur að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við Aðalskipulag Árneshrepps 2005-2025 og deiliskipulagið Hvalárvirkjun v/rannsókna, sem samþykkt var af hreppsnefnd Árneshrepps 13. mars 2019. Jafnframt hefur hreppsnefnd kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar: Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi, dags. 3. apríl 2017. Við samanburð á framkvæmd sem fyrirliggjandi umsókn lýsir og matsskýrslu vegna framkvæmdarinnar Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi, er sýnt að framkvæmdin varðar einungis hluta þeirrar framkvæmdar, þ.e. rannsóknir, s.s. á jarðfræðilegum þáttum, vegagerð, s.s vegum að og um virkjunarsvæði, brúargerð yfir Hvalá, efnistöku og efnislosun, byggingu fráveitu, öflun neysluvatns, uppsetningar vinnubúða og framkvæmda við verklok.

Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að við undirbúning leyfisveitinga þurfi leyfisveitendur að taka sérstaklega afstöðu til ákveðinna sjónarmiða umsagnaraðila með hliðsjón af ákvæðum 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga og 7. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Það er vegna sjónarmiða um að draga eins og kostur er úr raski á landslagi og náttúru og möguleika á minnkun á umfang virkjunar, t.d. svo að hún taki ekki til vatnasviðs Eyvindarfjarðarár og/eða að tryggt sé tiltekið lágmarksrennsli í þeim ám sem virkjunin hefur áhrif á.

Nú þegar framkvæmdaleyfi liggur fyrir vegna fyrirhugaðra jarðvegs- og bergrannsókna hefst vinna við kynningarferli á seinni hluta breytinga á skipulagi Árneshrepps en í þeim breytingum eru virkjunarmannvirki og línulagnir nánar útfærð. Reikna má með að skipulagið verði tilbúið til kynningar síðsumars.

Við göngubrú yfir Hvalá. Ný brú VesturVerks rís talsvert ofar í ánni.
Við göngubrú yfir Hvalá. Ný brú VesturVerks rís talsvert ofar í ánni.