Opnar og almennar kynningar eru mikilvægur hluti af því ferli sem mat á umhverfisáhrifum framkvæmda er. VesturVerk hefur nú gert aðgengileg á vefsíðu sinni vönduð og fróðleg veggspjöld úr kynningarferlinu vegna Hvalárvirkjunar en gott getur verið að glöggva sig á verkefninu í stuttum og hnitmiðuðum texta, töflum og vönduðu myndefni sem spjöldin geyma.
Brátt eru tvö ár liðin síðan VesturVerk lagði fram matsskýrslu um umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda. Þær fela í sér byggingu stöðvarhúss, stíflna, uppistöðulóna, gerð rennslisganga og skurða og gerð aðkomuvega að mannvirkjum. Í útdrætti skýrslunnar kemur fram hvaða umhverfisþættir voru teknir til skoðunar. Það voru jarðmyndanir, vatnafar, gróður, fuglar, vatnalíf, fornleifar, hljóðvist, ásýnd lands, landslag, samfélag og landnotkun.
Einnig kemur fram að helstu mótvægisaðgerðir virkjunarinnar verða að fella mannvirki að landi og draga úr sýnileika þeirra og áhrifum á landslag. Frá því að matsskýrslan var unnin hefur í hönnunarferlinu enn frekar verið dregið úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, s.s. með lækkun stíflna og því að setja frárennsli í jarðgöng í stað skurðar.
Niðurstaða matsskýrslunnar er skýr: ,,Heildarniðurstaða mats á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar er að áhrif framkvæmda séu á bilinu óveruleg til talsvert neikvæð. Framkvæmdir eru ekki taldar hafa umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum." Hafa ber í huga að þessi niðurstaða byggir á umsögnum allra þeirra lögbundnu aðila sem kallað var eftir umsögnum frá en það voru: Árneshreppur, Ferðamálastofa, Fiskistofa, Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun, Orkustofnun og Umhverfisstofnun.
Hér má nálgast tengilinn á veggspjöldin á vefsíðunni.