Ekki þjóðlenda í skilningi laga

20/10/2024
Deila

Sérstök óbyggðanefnd úrskurðaði á fimmtudag í síðustu viku að umtalsvert landsvæði sunnan og austan Drangajökuls teljist ekki þjóðlenda í skilningi laganna. Þar með er óvissu um yfirráð yfir vatnsréttindum vegna Hvalárvirkjunar á þessu tiltekna svæði eytt að hluta. Eftir stendur að Hæstiréttur taki afstöðu til áfrýjunarbeiðni í landamerkjamáli sem höfðað var af nokkrum landeigendum á svæðinu.

Drangajökull þjóðlenda en nærliggjandi svæði eignarland

Niðurstaða óbyggðanefndar er í megindráttum sú að íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á að land innan marka kröfusvæðis þess sé þjóðlenda. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé eignarland, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi.

Forsaga málsins er sú að óbyggðanefnd hafði í fyrri úrskurði árið 2019 komist að þeirri niðurstöðu að Drangajökull væri þjóðlenda. Þegar sá úrskurður lá fyrir endurskoðaði ríkið kröfur sínar og gerði nýja kröfu árið 2022. Var þess krafist að allmikið land sunnan og austan Drangajökuls teldist einnig þjóðlenda og þar með ekki í eigu eigenda jarðanna fimm sem eru á svæðinu. Skipuð var sérstök óbyggðanefnd til þess að úrskurða um nýju kröfuna og var það niðurstaða þeirrar nefndarinnar sem lá fyrir síðastliðinn fimmtudag.

Óvissu um vatnsréttindi að hluta eytt

Sérstök óbyggðanefnd fjallaði einnig um kröfur Vesturverks í málinu sem lutu að því að viðurkenndur yrði afnotaréttur af landi og nýtingarréttur að vatnsréttindum á sama svæði. Nefndin taldi sig ekki hafa úrskurðarvald um réttindi innan eignarlanda. Þar sem það svæði, sem kröfur VesturVerks lutu að, telst til eignarlands féll það utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um þær kröfur.

Úrskurður sérstakrar óbyggðanefndar þýðir að landeigendur teljast áfram vera eigendur landsins sem um ræðir. Það hefur þýðingu fyrir uppbyggingu Hvalárvirkjunar þar sem Vesturverk gerði á sínum tíma samninga við eigendur Ófeigsfjarðar og Engjaness um afnot af vatnsréttindum í landi þeirra til virkjunar.

Málareksturinn fyrir sérstakri óbyggðanefnd hefur ásamt öðru haft áhrif á framgang virkjunaráforma og er niðurstaðan mikilvægur liður í því að eyða ýmsum óvissuþáttum í aðdraganda framkvæmda.

Beðið eftir Hæstarétti

Enn er beðið niðurstöðu Hæstaréttar um áfrýjunarbeiðni nokkurra landeigenda að jörðinni Drangavík. Þeir vilja skjóta niðurstöðu Landsréttar til Hæstaréttar í máli sem þeir töpuðu bæði í Héraðsdómi og Landsdómi. Þar var þess krafist að jörðin Drangavík teldist mun stærri en viðurkennt hefur verið og næði yfir hluta af jörðunum Engjanesi og Ófeigsfirði og ætti þar með vatnsréttindi á þeim hlutum.

Þess hafði verið vænst að Hæstiréttur tæki afstöðu til áfrýjunarbeiðnarinnar í byrjun september á þessu ári en erindið er enn til umfjöllunar réttarins. Verði áfrýjunarbeiðninni hafnað í Hæstarétti markar það endalok þeirra málaferla sem staðið hafa um landamerkin í allmörg ár.

Niðurstaða sérstakrar óbyggðanefndar eyðir að hluta óvissu um vatnsréttindi á eignarlandi við Drangajökul.
Niðurstaða sérstakrar óbyggðanefndar eyðir að hluta óvissu um vatnsréttindi á eignarlandi við Drangajökul.