Birna Lárusdóttir gekk til liðs við VesturVerk nú um áramót og mun hún gegna starfi upplýsingafulltrúa og verkefnastjóra fyrirtækisins. Ráðning Birnu er liður í því að stuðla að málefnalegri umræðu um fyrirhugaðar vikjanaframkvæmdir fyrirtækisins á Vestfjörðum og raforkumál almennt.
Birna er fædd í Reykjavík árið 1966. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund og BA prófi í fjölmiðlafræði frá University of Washington í Seattle í Bandaríkjunum árið 1992. Að námi loknu fluttist hún til Ísafjarðar og tók við stöðu fréttamanns Ríkisútvarpsins á Ísafirði. Hún var fréttaritari RÚV í Noregi um þriggja ára skeið en fluttist þá vestur á ný og starfaði m.a. við kennslu, blaðamennsku og ritstjórn.
Árið 1998 tók hún sæti í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sat í bæjarstjórn samfellt í 12 ár, lengst af sem forseti bæjarstjórnar. Hún var varaþingmaður NV-kjördæmis og hefur gegnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina, s.s. stjórnarsetu í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, formennsku skólanefndar Menntaskólans á Ísafirði og formennsku í samgönguráði. Birna er einnig heiðursræðismaður Noregs og Svíþjóðar á Ísafirði. Síðustu þrjú ár hefur Birna starfað í hlutastarfi sem verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða.
Sambýlismaður Birnu er Hallgrímur Kjartansson, læknir, og eiga þau fjögur börn.