Vesturverk ehf. og Marigot ltd., eigandi Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal við Arnarfjörð, hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup á allt að átta megawöttum af raforku í tengslum við fyrirhugaða kalkþörungaverksmiðju Marigot í Súðavík.
Í kjölfar frétta og umfjöllunar fjölmiðla um skýrslu Landverndar sendi VesturVerk frá sér yfirlýsingu fimmtudaginn 11. janúar 2018 þar sem framsetning Landverndar á innihaldi skýrslunnar er gagnrýnd. Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður VesturVerks, var gestur Morgunútvarpsins á Rás2 á föstudagsmorgun af þessu tilefni og fór hann vel yfir málefni Hvalárvirkjunar ásamt því að benda á það sem VesturVerk telur gagnrýnivert við skýrslu Landverndar.
Þrír sérfræðingar hjá verkfræðistofunni Lotu telja ýmislegt bæði rangt og villandi í nýútkominni skýrslu Landverndar um jarðstrengi á Vestfjörðum. Rafmagnsverkfræðingarnir Eymundur Sigurðsson og Ólöf Helgadóttir ásamt Jóni Skafta Gestssyni, orku- og umhverfishagfræðingi birtu grein undir yfirskriftinni Málefnalegt svar við skýrslu um jarðstrengi á Vestfjörðum á visir.is. þann 12. janúar þar sem tíunduð eru ýmis atriði í skýrslunni.
Í nýúkominni skýrslu Landverndar, sem kynnt var nýlega, er nær ekkert minnst á vægi Hvalárvirkjunar á Ströndum til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum. Engu að síður dregur Landvernd þá ályktun út frá skýrslunni að Hvalárvirkjun muni í engu bæta orkuöryggi i fjórðungnum. Þessi framsetning er röng og hefur VesturVerk sent frá sér yfirlýsingu þess efnis.
Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa í um áratug horft til Hvalárvirkjunar sem vendipunkt í raforkumálum í fjórðungnum. Með virkjuninni skapast forsendur fyrir hringtengingu raflína á Vestfjörðum með lagningu línu um Ísafjarðardjúp og orkuframleiðslu sem hefur möguleika á að anna allri eftirspurn á Vestfjörðum, án notkunar jarðefnaeldsneytis. Þetta kemur fram í umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar um breytingar á aðalskipulagi Árneshrepps vegna áforma um byggingu Hvalárvirkjunar.