Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur annars vegar vísað frá og hins vegar hafnað kröfum um ógildingu framkvæmdaleyfis til VesturVerks vegna lagfæringa á Ófeigsfjarðarvegi í Árneshreppi. Nefndin kvað upp úrskurð sinn á föstudag. Kröfu hluta landeigenda jarðarinnar Seljaness var vísað frá þar sem þeir teljast ekki eiga lögvarða hagsmuni í málinu. Eigendur Eyrar í Ingólfsfirði eru taldir eiga hagsmuna að gæta en kröfu þeirra var þó hafnað.
Í úrskurðinum segir: ,,Þar sem kæruaðild kærenda sem eiga hlut í Seljanesi verður hvorki byggð á eignarréttarlegum grunni né grenndarhagsmunum verður kröfum þeirra vísað frá úrskurðarnefndinni". Hvað eigendur Eyrar varðar er staðfest að þeir eigi hagsmuna að gæta, þar sem vegurinn liggur m.a. um verksmiðjuhúsnæði í eigu þeirra. Nefndin kemst engu að síður að þeirri niðurstöðu að framkvæmdaleyfið sé ekki haldið slíkum form- eða efnisannmörkum að það varði ógildingu. Er því kröfu þeirra hafnað.
Fram kemur að uppkvaðning úrskurðarins hafi tafist vegna þess að málsmeðferðinni var frestað á meðan nátengd mál voru til meðferðar hjá dómstólum. Það voru kærumál á hendur VesturVerki og Árneshreppi sem vísað var frá Héraðsdómi Vestfjarða og Landsrétti fyrr á þessu ári.
Unnið verður að frekari rannsóknum í vor og sumar ásamt því að áfram er unnið að seinni hluta skipulagsbreytinga vegna Hvalárvirkjunar. Aðrar framkvæmdir verða í lágmarki þar til vinnu við skipulagsbreytingar er lokið.