Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti á fundi sínum í gær fyrri hluta tillagna VesturVerks að breytingu á aðal- og deiliskipulagi hreppsins vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Þrír fulltrúar greiddu atkvæði með breytingunni en tveir voru á móti. Breytingarnar lúta að vinnuvegum, efnistökustöðum og staðsetningu vinnubúða. Skipulagsbreytingin verður send til Skipulagsstofnunar sem hefur fjórar vikur til að staðfesta hana. Stofnunin getur synjað eða frestað gildistökunni en slíkt er sjaldgæft.
VesturVerk mun nú hefja undirbúning að umsókn til hreppsnefndar um framkvæmdaleyfi vegna ofangreindra þátta á grundvelli samþykktar hreppsnefndarinnar frá í gær. Framkvæmdaleyfi er ekki hægt að gefa út fyrr en Skipulagsstofnun hefur staðfest breytinguna. Áfram verður unnið að gerð síðari hluta skipulagstillagna VesturVerks vegna virkjunarframkvæmdanna og er stefnt að því að leggja þær fram til almennrar kynningar á vormánuðum.
Það er verkfræðistofan Verkís sem hefur veg og vanda að allri vinnu við gerð skipulagstillagna VesturVerks. Erla Bryndís Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt hjá Verkís, var gestur fundarins í gær og gerði hún grein fyrir tillögunum og athugasemdum við þær. Einnig sátu fyrir svörum á fundinum Bogi Kristinsson Magnusen, byggingafulltrúi hreppsins, og Jón Jónsson lögmaður hreppsins.
Fundargerðir hreppsnefndar eru aðgengilegar á vef Árneshrepps og hér má nálgast fundargerð gærdagsins þar sem breytingartillögurnar að aðal- og deiliskipulaginu voru samþykktar.
Erindi VesturVerks um samfélagsleg verkefni var ekki tekið fyrir í gær og bíður því síðari funda hreppsnefndar.