Áhrif vindmyllugarðs við Hvalá

8/02/2018
Deila

Umræða um vindmyllur sem valkost í orkuframleiðslu á Íslandi fer vaxandi. Spurt er hvort vindmyllugarðar geti komið í stað vatnsaflsvirkjana, t.a.m. í stað Hvalárvirkjunar á Ströndum. Til að átta sig á umfangi slíkra garða er gott að glöggva sig á samanburði Hvalárvirkjunar, sem verður 55 MW að stærð, við mögulegan vindmyllugarð með samsvarandi framleiðslugetu.

Við hönnun og staðarval vindmyllugarðs þarf að miða við bæði veðurfarslegar aðstæður til orkunýtingar og áhrif mannvirkja á umhverfið, þannig að hámarksframleiðsla náist með sem minnstum umhverfisáhrifum.

Ýmis umhverfisáhrif vindmylla

Vindmyllur eru stór mannvirki sem sjást víða að og því þarf að skoða vel sýnileika þeirra og ásýnd. Í flestum tilvikum ber þær hátt við himinn sem eykur mjög á sýnileikann. Hreyfing spaðanna dregur jafnframt athyglina frá kyrrstæðu landslagi. Umtalsverður hávaði er einnig frá vindmyllum og skuggamyndanir af möstrunum eru verulegar auk þess sem hreyfanlegir skuggar myndast frá spöðum sem snúast. Hæð og fjöldi vindmylla getur einnig skipt miklu máli. Í mikilli fjarlægð er ekki víst að stærðarmunurinn verði mjög sýnilegur og þá skiptir fjöldinn meira máli.

Á hæð við tvær Hallgrímskirkjur

Algengustu vindmyllurnar eru 100-150 m háar og er þá miðað við hæstu stöðu spaða. Stærri vindmyllur eru þó til. Til samanburðar er Hallgrímskirkjuturn tæpir 75 m á hæð og því jafngildir vindmylla í hæstu stöðu tveimur slíkum turnum. Til að vindmyllugarður nái að framleiða þau 55 MW sem Hvalárvirkjunar mun geta framleitt þarf að lágmarki 16 vindmyllur sem framleiða 3,5 MW hver og eru 150 m á hæð. Lægri vindmyllur, t.a.m. 125 m háar, framleiða 2,8 MW hver og þyrfti í það minnsta 20 slíkar til að jafngilda framleiðslugetu Hvalárvirkjunar. Reyndar er það svo að orkuframleiðsla vindmyllu er aldrei eins stöðug og gerist í vatnsaflsvirkjun enda vindafar misjafnara en rennsli vatnsföllum. Því má reikna með að umtalsvert fleiri vindmyllur þurfi til að framleiða í reynd álíka mikla orku og vatnsaflsvirkjun.

Reynslumiklir Skotar

Samkvæmt upplýsingum frá verkfræðistofunni Verkís hafa Skotar mikla reynslu af byggingu vindmyllugarða og hafa yfirvöld þar gefið út leiðbeiningar um hvernig umhverfisáhrif þeirra eru metin. Er talað um athugunarsvæði í því sambandi. Við staðarvalsathugun eru m.a. sýnileikinn og áhrif á ásýndina metin sérstaklega. Ef ekkert skyggir á er hægt að greina 150 m háa vindmyllu úr 45 km fjarlægð og 125 m há vindmylla getur sést úr 40 km fjarlægð. Innan þessa svæðis er mögulegur sýnileiki metinn skv. skosku leiðbeiningunum. Nánari athugun er síðan gerð á svæði sem nær 25 km frá vindmyllugarðinum og áhrifin metin út frá ýmsum þáttum, allt eftir aðstæðum á hverjum stað.

45 kílómetra athugunarsvæði vindmyllugarðs

Á meðfylgjandi mynd hefur Hvalárvirkjun verið breytt í vindmyllugarð með sextán 150 m háum vindmyllum. Samkvæmt skosku leiðbeiningunum nær athugunarsvæðið út á miðjan Húnaflóa, suður fyrir Hólmavík, að Vigur í Ísafjarðardjúpi og langleiðina að Látravík í Hornstrandafriðlandinu. Græn skyggð svæði sýna víðerni skv. afmörkun Umhverfisstofnunar frá 2009.

Það er deginum ljósara að sýnileg áhrif af vindmyllugarði við Hvalárvatn, sem er í 300 metra hæð yfir sjávarmáli yrðu umtalsverð. Þá er hljóðmengun óupptalin sem og skuggamyndanir sem án ef myndu hafa áhrif á göngufólk og jafnvel trufla íbúa í Ófeigsfirði og mögulega víðar. Í hvert sinn sem mylluspaðinn fer fyrir sólu myndast skuggi í stutta stund en slíkt skuggaflökt getur haft mikil áhrif á upplifun á svæðinu. Það á einnig við um hljóð og titring frá myllum á svo kyrrlátu svæði.

Hér hefur verið miðað við að vindmyllugarður yrði staðsettur á sama stað og Hvalárvirkjun. Hins vegar ber að hafa í huga að ef farið yrði í að skoða alvarlega gerð vindmyllugarðs innan Ófeigsfjarðarlandsins má ætla að garðurinn yrði staðsettur enn ofar í landslaginu, á berangri efst á Ófeigsfjarðarheiði, sem er 520 m.y.s. Leiða má getum að því að þaðan væru mannvirkin sýnileg íbúum við sunnanvert Djúp; í Bolungarvík, á Ísafirði og í Súðavík.

Ef vindmyllugarður kæmi í stað Hvalárvirkjunar yrði hann að samanstanda af 16 vindmyllum hið minnsta sem hver um sig væri á hæð við tvo Hallgrímskirkjuturna. Athugunarsvæði slíkra mannvirkja er allt að 45 km samkvæmt skoskum viðmiðum. Mynd: Verkís.
Ef vindmyllugarður kæmi í stað Hvalárvirkjunar yrði hann að samanstanda af 16 vindmyllum hið minnsta sem hver um sig væri á hæð við tvo Hallgrímskirkjuturna. Athugunarsvæði slíkra mannvirkja er allt að 45 km samkvæmt skoskum viðmiðum. Mynd: Verkís.